driver
tranzit

Þroskasaga listamannsins Hafsteins Austamanns.

„Sá heimur, er hann hrærist í er samfelldur og áferðarhreinn, auðskilinn og tær.“ Þannig fórust Valtý Péturssyni, myndlistargagnrýnanda Morgunblaðsins til margra ára, eitt sinn orð um listsýningu Hafsteins Austmann (Mbl 7.9.66). Fágað yfirbragð þeirra mynda sem eftir Hafstein liggja, og Valtýr lýsir hér með sínum hætti, hefur eflaust orðið til þess að vekja upp ýmsar ranghugmyndir um hvorttveggja listsköpun hans og listviðhorf. Útbreidd er sú bábilja að „fágaðar“, „auðskildar“ og „tærar“ myndir verði til án mikillar fyrirhafnar og geti aldrei komið til skila miklum tilfinningum og háleitum hugmyndum. Samkvæmt henni eru fljótgerð, hrá og átakamikil verk að einhverju leyti „sannari“ eða „marktækari“ en þau verk sem þróuð eru samfellt og á löngum tíma, uns eftir stendur kristalstær mergurinn málsins. Þar með er væntanlega útséð um menningarlegt mikilvægi listaverka á borð við ljóð Tómasar Guðmundssonar, píanóverk Saties eða kvikmyndir Erics Rohmer, sem oft og iðulega hafa fengið á sig sama stimpil og myndlist Hafsteins Austmanns.

Fáguð og yfirveguð niðurstaðan sem birtist í verkum Hafsteins er heldur ekki í neinu samræmi við þá vinnu sem að baki þeim liggur. Að baki hverrar vellukkaðrar vatnslitamyndar er legíó formynda sem standast ekki þær kröfur sem listamaðurinn gerir til sjálfs sín, og undir yfirborði sérhverrar olíumyndar leynast oft býsna mörg lög misheppnaðra hugmynda. Svo ekki sé minnst á annan fórnarkostnað listræns metnaðar: verkkvíða, andvökunætur, efasemdir og sjálfsgagnrýni sem oft gengur nærri viðkvæmri skaphöfn. Eitt er víst, sú myndveröld sem Valtýr lýsir hér í upphafi á lítið skylt við raunveröld Hafsteins eins og hún birtist honum framan af starfsævinni. Jafnvel mætti gera því skóna að yfirveguð myndlist hans sé öðrum þræði eins konar brjóstvörn listamanns – sjálfur hefur hann líkt myndlist sinni við hús – ítrekaðar tilraunir til að koma reglu á minningar um það margbrotna lífshlaup sem honum hefur verið úthlutað.